Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1468  —  658. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem fela í sér fækkun ráðuneyta úr tólf í níu. Er það mikið fagnaðarefni því að brýnt er að ríkið að dragi saman seglin og spari í rekstri. Árið 2009 námu heildarútgjöld ráðuneytanna rúmlega 5.886 millj. kr. 1 Það má flestum vera ljóst að við slíkar breytingar er óhjákvæmilegt að fækka starfsfólki eigi sparnaður að nást vegna hagkvæmni sameiningar. Í frumvarpinu kemur fram að öllum starfsmönnum ráðuneytanna verður boðið áframhaldandi starf í sameinuðum ráðuneytum óski þeir þess. Því er ljóst að sá sparnaður sem hægt væri að ráðast í strax skilar sér ekki. Á árinu 2009 var fjöldi ársverka í dagvinnu á aðalskrifstofum ráðuneytanna 511. 2
    Skýrari verkaskipting ráðuneyta er nauðsynleg og skynsamlegt er að sú skipting taki tillit til samfélagsins og atvinnuhátta á hverjum tíma. Auðvelt hefði verið að ná sátt um þessa fækkun ráðuneyta hefði vilji verið til staðar hjá ríkisstjórninni. Enda kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að gert var ráð fyrir að sumarið yrði nýtt til samráðs milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi þannig að ljúka mætti afgreiðslu frumvarpsins á haustdögum. Reyndar var það svo að á vordögum liðkaði frumvarpið fyrir þinglokum vegna hins lofaða samráðs sem nú hefur ekki verið staðið við.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að skiptar skoðanir séu í þjóðfélaginu um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið annars vegar og iðnaðarráðuneytið hins vegar og sameina í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Hafa ýmis samtök er málið varðar mótmælt þessum áformum. Þrátt fyrir að einnig hafi verið áformað að setja á fót stýrihóp fyrir samþykkt frumvarpsins, með þátttöku ráðherra, verkefnisstjórnar með þátttöku ráðuneytisstjóra, sérfræðinga og fulltrúa starfsmanna ráðuneytanna, hefur það ekki verið efnt. Segir orðrétt í greinargerð með frumvarpinu: „Mikilvægur þáttur vinnunnar verður að ræða málið við samtök sem eiga hagsmuna að gæta. Er þar sérstaklega átt við heildarsamtök svo sem í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi, stéttarfélög, félag forstöðumanna og sveitarfélögin. Þá verður þingflokkum boðið að tilnefna tengiliði til að fylgjast með vinnunni og koma sínum sjónarmiðum að. Þessir aðilar munu einnig fylgja því eftir að fram fari allsherjarendurskoðun á þeim verkefnum sem viðkomandi ráðuneyti sinna og þeim stofnunum sem undir þau heyra.“ Samráðsviljinn er alveg skýr í frumvarpinu en efndirnar engar, enda fór svo að ríkisstjórnin ákvað að fresta sameiningu atvinnuvegaráðuneytanna vegna mótstöðu úr samfélaginu. 2. minni hluti allsherjarnefndar fagnar því að fallið hafi verið frá því að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt atvinnuráðuneyti. Slíkt þarfnast miklu meiri undirbúnings og faglegra vinnubragða.
    Í skriflegu svari sem framsögumaður 2. minni hluta bað um frá forsætisráðuneytinu er útlistað hvaða stofnanir heyra undir ráðuneytin eftir breytingar (sjá fylgiskjal I). Hafa ráðuneytin afar misjafnt vægi að þessu leyti. Að auki var óskað eftir starfsmannafjölda í hverri stofnun en þær upplýsingar fengust ekki. Það eitt sýnir hve verkefni það sem nú er verið að ráðast í, að fækka ráðuneytum, er illa undirbúið og vanhugsað. Í viðauka 3 í riti um sameiningu ríkisstofnana, sem fjármálaráðuneytið gaf út í desember 2008, er gátlisti við mat á fyrirkomulagi verkefna sem ríkið sinnir nú þegar og verkefna sem til athugunar er að ríkið sinni (sjá fylgiskjal II). Ekki verður séð á frumvarpinu að við frumvarpsgerðina hafi verið farið að þessum leiðbeiningum sem æskilegt hefði verið að hafa til hliðsjónar við sameiningu ráðuneyta. Því síður er hægt að finna stað í frumvarpinu að farið hafi verið eftir tilmælum sem finna má í viðauka 4 í sama riti um framsetningu samrunaáætlunar (sjá fylgiskjal II). Eru þessi vinnubrögð gagnrýnd í nefndaráliti þessu. Framkvæmdarvaldið verður skilyrðislaust að fara sjálft að þeim reglum sem það sjálft setur.

Alþingi, 6. sept. 2010.



Vigdís Hauksdóttir.





Fylgiskjal I.


Listi yfir stofnanir.

(Úr svari forsætisráðuneytis við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur, 27. ágúst 2010.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Úr ritinu Sameining ríkisstofnana (fjármálaráðuneytið, desember 2008).




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðanmálsgrein: 1
    1 Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um rekstur ráðuneyta og starfsmannafjölda árin 2006–2009 á 138. löggjafarþingi 2009–2010, þskj. 1152, 598. mál.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um rekstur ráðuneyta og starfsmannafjölda árin 2006–2009 á 138. löggjafarþingi 2009–2010, þskj. 1152, 598. mál.